2.7.2008 | 23:50
Nóg að gera!
Jæja aldeilis langt síðan ég hef skrifað eitthvað hér. Það er búið að vera meira en nóg að gera bæði í vinnunni og annarsstaðar. Bensínverð heldur áfram að hækka og ég held að það sé alveg útséð um það að ég fari að spá í íbúðakaup fyrr en í fyrsta lagi í janúar. Það hafa margir spurt mig af hverju ég fari ekki að leigja en í sannleika sagt þá finnst mér það vera bara peningasóun í bili. Hitt er annað mál að ef að ástandið hefur ekkert lagast í janúar í sambandi við kaup þá verð ég örugglega tilbúin til að fara í eigið húsnæði hvort sem er leigt eða keypt. Í bili er ég allavega bara sátt hérna hjá mömmu og pabba enda að vinna slatta mikið og svona líka meðan ég er að komast inn í hvernig allt virkar á Íslandi. Þetta er búið að vera mikið að læra undanfarnar vikur en nú held ég að það hljóti að fara að róast um og allt fari að komast í fastar skorður.
Fékk búslóðina mína í síðustu viku. Ætla nú ekki að fara mörgum orðum um það hér á opnum vef hvað mér finnst um hvernig var staðið að þessum flutningum. Segjum bara að ég hafi mikið lært af þessu og er síður en svo ánægð með hvernig staðið var að ýmsum þáttum í að koma dótinu heim. Það sem skiptir hins vegar máli núna er að það er komið og að það er búið að vinna úr öllum þessum vandamálum sem komu upp. Situr eins og er niðrí bílskúr hérna hjá mömmu og pabba og mig klæjar í puttana að fara að pakka uppúr og koma þessu fyrir hjá mér, en það verður víst að bíða aðeins betri tíma. Rándýrt að flytja svona búslóð á milli landa, en maður verður líka að hugsa um það hvað það myndi kosta að kaupa þetta allt saman uppá nýtt hérna á Íslandi. Ég er ekkert viss um að það yrði neitt ódýrara, ef ekki bara töluvert dýrara.
Segi þetta gott í bili. Þangað til næst
Krissan
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.