Jæja komin til Íslands

Síðast þegar ég skrifaði hér var ég að bíða á Baltimore flugvelli eftir flugi til Íslands.  Eftir að hafa beðið alla nóttina þá var okkur tilkynnt klukkan rúmlega 6 að vélin færi ekki í loftið fyrr en í fyrsta lagi klukkan átta um kvöldið og það væri alls ekki öruggt. 

Ég missti mig aðeins við starfsmann Flugleiða þarna úti enda algerlega ósofin og pirruð með áhyggjur af því að missa kannski af Danmerkur ferðinni.   En ég jafnaði mig nú fljótt og róaði mig niður enda allir þarna í sömu sporum og starfsfólkið líka búið að vera vakandi alla nóttina rétt eins og við farþegarnir.     Ég beið svo í þrjá tíma í viðbót (sem gerði allt í allt 19 tíma bið á vellinum) eftir að láta tékka á því hvort væri hægt að senda mig til Kaupmannahafnar með öðru flugfélagi.  Það var svo ekki hægt og því ekkert að gera nema að finna sér hótelherbergi til að hvílast.  Þegar við spurðumst fyrir um hvort flugfélagið hjálpaði til með hótelkostnað eða allavega matarkostnað var svarið bara "nei, þar sem þetta er seinkun vegna veðurs þá getum við ekkert gert fyrir ykkur".   Jæja ég fann hótel herbergi rétt hjá flugvellinum og var sótt sérstaklega af einstaklega indælum manni sem keyrði mig á stað til að kaupa mér eitthvað að borða áður en við fórum á hótelið.  Honum fannst það alveg ófært að ég færi að sofa án þess að hafa borðað fyrst, algert krútt. 

Ég var orðin svo þreytt að ég var eiginlega ekki þreytt lengur (ef það meikar einhvern sense) en náði þó að dotta í um þrjá tíma.   Ég hringdi svo út á flugvöll og spurðist fyrir um flugið og fékk að vita að það myndi pottþétt fara í loftið klukkan 7:45 en að stoppa þyrfti í Boston til að pikka upp farþega þar.   Ok, ég þurfti að komast heim, var nú ekki ánægð með að stoppa í Boston þar sem bæði seinkaði það heimkomu un allavega einn og hálfan tíma og ég með áhyggjur af að komast í Danmerkur flugið.  Það varð líka til þess að ekki vannst tími til að ná í farangur og koma honum í geymslu á flugvellinum og ég þurfti að hlaupa beint úr fluginu og í næsta flug.   Kem því að hér að við fengum svo matarmiða þegar við komum á völlinn aftur um kvöldið og fría drykki í fluginu.  Allt í einu annað hljóð heldur en þegar ég spurði um mat kvöldið áður. 

Kaupmannahöfn var æðisleg þó ég væri dauðþreytt.  Fór í tívolíið, á strikið og í siglingu.  Flugum svo heim í gær og þá þurfti ég að borga 18.þúsund krónur íslenskar fyrir yfirvigt á farangri sem ég ætlaði aldrei að vera með í Köben.  Finnst það frekar skítt að þurfa að standa í svona kostnaði útaf svona sem maður planar ekki og á enga sök á.   Geri mér fyllilega grein fyrir að Icelandair stjórnar ekki veðrinu en mér finnst að það eigi að vera eitthvað hægt að gera fyrir kúnnana sína í svona aðstæðum.  Skrifaði allavega e-mail á þá í dag og ætla að sjá hvað gerist.  Ætla mér allavega ekki bara að borga þetta þegjandi og hljóðalaust. 

Tók á móti okkur heldur betur rok og rigning í gær þegar við lentum.  Get ekki ímyndað mér hvernig þetta var á föstudaginn helmingi verra.   Er svo bara búin að vera að taka uppúr töskum, þvo og ná áttum í dag.  Skrapp niður í vinnu og byrja að vinna bara strax á morgun.   Mjög sátt við það.

Plönuð klipping í fyrramálið fyrir vinnu og matarboð eftir vinnu. 

Læt heyra í mér aftur fljótlega

Krissan


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband